top of page

Vélavika í Fab Academy 2024



Á hverju ári þegar Fab Academy námið er um það bil hálfnað er Vélavika eða Machine Week. (sjá frétt Hvað er Fab Academy?) Í Vélaviku hafa nemendur eina viku til þess að búa til vél, einu kröfurnar eru að það séu hreyfanlegir partar í vélinni og að það sé einhverskonar sjálfvirkni. 


Vélavika Fab Academy 2024 er nýliðin og tóku nemendur Fab Lab Reykjavíkur og Fab Lab Vestmannaeyja saman höndum og bjuggu til vél á nokkrum dögum.

Að búa til vél á nokkrum dögum er stórt verkefni og þurfti að huga að mörgu. Fyrsta skrefið var að ákveða hvers konar vél átti að búa til. Ákveðið var að búa til sósuvél eða vél sem væri hreyfanleg á einum ás með pumpu sem sprautar sósu á pylsuna. Að þessu sinni var ákveðið að einblína á tómatsósu með möguleika á að bæta við fleiri sósum í framtíðinni.


Ásinn var þrívíddarprentaður og var notast við þráð tengdan mótor til þess að hreyfa sósuskammtarann. Í stað þess að kaupa tilbúna pumpu var ákveðið að búa til pumpu frá grunni. Aftur var notast við þrívíddarprentara til þess að prófa og ganga úr skugga um að það væri hægt að þrívíddarprenta pumpu sem virkar. Fyrst var notast við pumpu sem var fundin á netinu og þrívíddarprentuð sem sýndi fram á að hugmyndin virkaði. Því næst tók einn nemandi sig til og hannaði nýja pumpu frá grunni, módelaði í tölvu og þrívíddarprentaði. Þá voru helstu hlutir vélbúnaðarins tilbúnir og komið var að því að búa til kassa eða grind til þess að koma öllum íhlutunum saman í eina vél. Að auki þurfti að búa til rafbúnað til þess að stjórna vélinni. Til þess að koma öllum vélbúnaðinum saman í eina vél var hannaður kassi sem gerði ráð fyrir öllum vélbúnaði, rafbúnaði, tökkum og sósum sem vélin þurfti. Kassinn var skorinn í geislaskera og settur saman með öllum vélbúnaðinum. Samhliða hönnuninni á kassanum voru gerðar nokkrar tilraunir með rafbúnaðinn, hvers konar örtölvu, mótor stýringar og mótora ætti að nota. Þegar búið var að ákveða alla íhluti fyrir rafbúnaðinn var allt tengt saman, prófað og ítrað. Þegar rafbúnaðurinn virkaði sem skyldi var hönnuð rafrás sem gerði ráð fyrir öllu sem þyrfti að vera á rafrásabrettinu. Því næst var kassinn settur saman og vélbúnaðinum, ásnum, pumpunni, tökkum, rafbúnaði og sósu komið fyrir. Þá var ekkert eftir nema að grilla nokkrar pylsur og prófa vélina. Í fyrstu tilraun virkaði vélin eins og gert var ráð fyrir, ýtt var á takka og ásinn hreyfði sósuskammtarann yfir pylsuna á meðan pumpan sprautaði tómatsósu yfir alla pylsuna. Að lokum gerðu nemendur myndband sem sýndi þróunarferlið ásamt því hvernig vélin virkar. Sjá myndband hér.


Við hjá Fab Lab Reykjavík viljum þakka Fab Lab Vestmannaeyjum fyrir skemmtilegt samstarf og hrósa og óska öllum nemendum til hamingju fyrir vel unnin störf.


Comments


bottom of page