Skráning er hafin í Fab Academy 2025
Lærðu að búa til (nánast) hvað sem er - á tuttugu vikum. Það er kjarninn í Fab Academy sem er leiðandi nám á sviði stafrænnar hönnunar og framleiðslu. Fab Lab Reykjavík býður upp á aðstöðu, kennslu og leiðsögn fyrir nemendur sem taka þátt í Fab Academy 2025. (sjá nánar frétt Hvað er Fab Academy)
Fyrir hvern er Fab Academy?
Fab Academy er ætlað öllum þeim sem vilja öðlast færni í stafrænni hönnun og framleiðslu. Til að taka þátt í náminu er enskukunnátta og grunnþekking á tölvunotkun nauðsynleg. Mikil áhersla er lögð á stjórnun tölvustýrðra véla t.d. geislaskerum, fræsum og þrívíddarprenturum, ásamt hönnun og framleiðslu á rafrásum, lóðun og forritun á örstýringum. Fyrir þau sem hafa litla til enga kunnáttu í 2d og 3d hönnun, stafrænni framleiðslu, rafeinda forritun og vefhönnun er Fab Academy fullt nám.
Hvernig tek ég þátt?
Til þess að taka þátt í Fab Academy er nauðsynlegt að geta komið í Fab Lab smiðju til þess að nota tækin. Fyrirlestrar og verkefnaskil fara fram á netinu á ensku en leiðbeinandi í Fab Lab Reykjavík veitir leiðsögn og kennslu á íslensku (eða ensku). Í hverri viku er fyrirlestur þar sem farið er yfir nýtt viðfangsefni og verkefni sett fyrir. Farið er yfir tækin og tólin í Fab Lab smiðjum og nemendur prófa sig áfram og „læra með því að gera“. Allir þessir fyrirlestrar og verkefni koma saman í lokaverkefni sem allir nemendur þurfa að klára til þess að útskrifast.
Hagnýtar upplýsingar
Fab Academy 2025 hefst um miðjan janúar 2025 og tekur um fimm mánuði og í júní kynna allir nemendur lokaverkefni sín. Þriggja klukkustunda fyrirlestrar fara fram á miðvikudögum og þriðja hvern mánudag er auka fyrirlestur þar sem sérfræðingar fara nánar yfir mismunandi viðfangsefni. Einnig eru vikulegir opnir tímar fyrir spjall og spurningar. Að auki verða vikulegir fundir með öðrum Fab Lab smiðjum á Íslandi þar sem farið verður yfir verkefni vikunnar. Samhliða fyrirlestrum og fundum verja nemendur þó nokkrum klukkustundum á viku í smiðjunni við að klára vikuleg verkefni og vinna að lokaverkefnum. Fyrir flesta er Fab Academy (nánast) fullt nám. Kostnaður við námið er tvískiptur, Central kostnaður og Local kostnaður. Central hlutinn, $2500, er greiddur beint út til Fab Foundation sem heldur utan um Fab Academy. Local kostnaður, $2500, fer til Fab Lab Reykjavíkur og gengur upp í allan efniskostnað og laun leiðbeinanda. Möguleiki er á afslætti af Local kostnaði. Einnig er möguleiki á aðstoð stéttarfélaga varðandi Local kostnað. Hafið samband varðandi frekari upplýsingar um kostnað.
Allar frekari upplýsingar um námið er hægt að nálgast á síðu Fab Academy. Leiðbeinandi í Fab Academy hjá Fab Lab Reykjavík er Andri Sæmundsson. Hafið samband við Andra hjá Fab Lab Reykjavík fyrir allar frekari spurningar.
Kennsluáætlun
Í hverri viku vinna nemendur í heimasíðunum sínum þar sem þau lýsa verkefnum vikunnar, mælt er með því að tengja vikuleg verkefni við lokaverkefni. Nemendur vinna í lokaverkefnum samhliða vikulegum verkefnum. Í sumum vikum eru hópverkefni sem nemendur vinna saman. Eftirfarandi kennsluáætlun gæti breyst.
Vika 1 - Principles and Practices - Project Management
Heimasíðugerð
Nemendur læra að nota Git til þess að setja upp og halda uppi heimasíðu. Unnið er í heimasíðunni í hverri viku þar sem nemendur nota skýrslur, myndir og myndbönd til að lýsa hvernig þau leystu verkefni vikunnar.
Vika 2 - CAD - Computer-Aided Design
Tölvuteikning
Nemendur prófa sig áfram með mismunandi 2d og 3d forrit og búa til teikningar og þrívíddamódel af mögulegu lokaverkefni.
Vika 3 - Computer-Controlled Cutting
Vínylskerar - Geislaskerar (2d hönnun)
Nemendur læra að stilla og vinna með Vínylskera og Geislaskera. Nemendur búa til skjöl sem skorin eru út í Vínylskera og einnig parametrísk skjöl skorin út í Geislaskera til þess að búa til hlut sem hægt er að setja saman á mismunandi vegu. Hópverkefni: Fara yfir öryggisatriði og gera tilraunir með tækin.
Vika 4 - Embedded Programming
Forritun örstýringa
Nemendur forrita örstýringu til þess að eiga samskipti við inntak og/eða úttak (input/output). t.d. forrita takka eða skynjara og sýna niðurstöður á skjá, ljósi o.s.fr. Hópverkefni: Bera saman mismunandi örstýringar og vinnuflæði.
Vika 5 - 3d Scanning and Printing
Þrívíddarskönnun og prentun
Nemendur læra að vinna með þrívíddarskanna og þrívíddarprentara, búa til skjöl, gera tilraunir og prenta út í þrívíddarprentara. Hópverkefni: Gera tilraunir til að komast að takmörkunum í þrívíddarprentun.
Vika 6 - Electronics Design
Rafrása Hönnun
Nemendur læra á rafrása-teikniforrit og búa til sín eigin rafrásar bretti með örstýringu. Hópverkefni: Nota prófunarbúnað (multimeter, oscilloscope) til að mæla hvað örstýring er að gera.
Vika 7 - Computer-Controlled Machining
Tölvustýrð Fræsun
Nemendur læra að vinna með stóra fræsivél og búa til eitthvað stórt. Verkefnið er hannað í tölvu, fræst út í stórum fræsi og sett saman. Hópverkefni: Fara yfir öryggisatriði og gera tilraunir með fræsinn.
Vika 8 - Electronics Production
Rafrása Framleiðsla
Nemendur framleiða rafrásar brettið sem hannað var í viku 6. Brettið er fræst út, lóðað, forritað og prófað. Hópverkefni: Lýsa því hvernig rafrásar bretti er framleitt innanhúss og senda teikningu af rafrásar bretti til framleiðslu utanhúss.
Vika 9 - Output Devices
Úttak
Nemendur búa til rafrásar bretti með úttaki, skjár, ljós, titringur o.s.frv.. Bretti hannað, fræst, lóðað, forritað og prófað. Hópverkefni: Mæla orkunotkun rafrása brettis.
Vika 10-11 - Mechanical Design - Machine Design
Vélavika
Nemendur vinna saman í hópum og búa til einhvers konar vél á tveimur vikum. Vélin þarf að hafa hreyfanlega parta og geta unnið án afskipta.
Vika 12 - Input Devices
Inntak
Nemendur búa til rafrásar bretti með inntaki, hita/raka skynjara, hreyfiskynjara o.s.frv.. Bretti hannað, fræst, lóðað, forritað og prófað. Hópverkefni: Kanna hliðræn/stafræn (analog/digital) merki frá rafrás.
Vika 13 - Molding and Casting
Mótun og Steypun
Nemendur búa til stafræna hönnun af hlut, fræsa út eða þrívíddarprenta og búa til (sílikon) mót. Steypt er í mótið með t.d. gifsi, steypu, epoxy, vaxi, súkkulaði o.s.frv. Hópverkefni: Fara yfir öryggisatriði tengt þeim efnum sem eru notuð. Gera tilraunir með efni.
Vika 14 - Networking and Communication
Net og Samskipti
Nemendur búa til rafrásar bretti með örstýringu sem getur átt samskipti við önnur tæki með víraðri eða óvíðraðri tenginu, (wired/wireless) t.d. í gegnum vír eða Bluetooth/WiFi. Hópverkefni: Senda skilaboð á milli tveggja verkefna.
Vika 15 - Interface and Application Programming
Forritunarviðmót
Nemendur búa til viðmót við örstýringu svo hægt sé að t.d. lesa af skynjara og/eða stjórna úttaki frá tölvu. Hópverkefni: Bera saman viðmótartól.
Vika 16 - Wildcard Week
Frjálst Val
Nemendur nýta stafræna hönnun til þess að búa til eitthvað sem ekki hefur verið sérstaklega kennt.
Vika 17 - Applications and Implications
Tilgangur og Tengingar
Fyrirlestur um mismunandi uppfinningar, tæki og tól og farið yfir tilgang og tengingar. Nemendur fara nú á fullt í að klára lokaverkefni.
Vika 18 - Invention, Intellectual Property and Income
Uppfinning, Hugverk og Tekjur
Fyrirlestur um uppfinningar hvað það þýðir að fá einkaleyfi og hvernig hægt er að fá tekjur af uppfinningum. Unnið í lokaverkefni.
Vika 19 - Project Development
Verkefnaþróun
Nemendur vinna að lokaverkefni og undirbúa kynningu.
Vika 20 - Project Presentations
Kynningar á Lokaverkefnum
Allir nemendur búa til einnar mínútu myndband þar sem lokaverkefnið er kynnt.